Viðskipti innlent

Yfir 100 sýnendur á Tækni og vit 2007

Yfir 100 sýnendur hafa skráð sig til þátttöku á stórsýningunni Tækni og vit 2007 verður haldin í Fífunni í Kópavogi dagana 8.-11. mars næstkomandi. Mikil gróska er í tækni- og þekkingariðnaði og verður sýningin stærsti viðburður sem haldinn hefur verið á Íslandi á þessu sviði.

Í tilkynningu frá skipuleggjendum sýningarinnar kemur fram að mikil fjölbreytni einkenni sýninguna. Sem dæmi megi nefna fyrirtæki úr tölvugeiranum, bæði hugbúnaðar-, vélbúnaðar- og netfyrirtæki, auk fjarskiptafyrirtækja, orkufyrirtækja iðntæknifyrirtækja, sveitarfélaga, opinberra stofnana og ráðuneyta, skóla, fjármálafyrirtækja og fjölmiðla, svo eitthvað sé nefnt.

Sýnendur munu kynna nýjungar í vörum og þjónustu en einnig veita margvíslega fræðslu um ýmislegt sem tengist tækni- og þekkingariðnaði. Sýningar á borð við Tækni og vit 2007 nýtast stjórnendum úr atvinnulífinu og hjá hinu opinbera jafnan vel til að mynda viðskiptatengsl og kynnast væntanlegum samstarfsaðilum.

Sýningin verður opin fagaðilum fimmtudag og föstudag en helgina 10. og 11. mars verður almenningur einnig boðinn velkominn.

Auk sýningarinnar í Fífunni verða ýmsir viðburðir haldnir í tengslum við Tækni og vit 2007. Þar má t.d. nefna ráðstefnu sem forsætis- og fjármálaráðuneyti halda í Salnum í tilefni UT-dagsins 8. mars og móttöku í Listasafni Kópavogs - Gerðarsafni 9. mars þar sem framsæknum sprotafyrirtækjum verða veittar viðurkenningar.

AP sýningar standa að Tækni og vit 2007 í samstarfi við forsætisráðuneyti, fjármálaráðuneyti, iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, Samtök iðnaðarins, Háskólann í Reykjavík, Orkuveitu Reykjavíkur og TM Software.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×