Erlent

Bretar og Danir kalla hermenn heim frá Írak

Breskir hermenn að störfum í Basra. Þeir hverfa brátt heim á leið.
Breskir hermenn að störfum í Basra. Þeir hverfa brátt heim á leið. MYND/AP

Búist er við að Tony Blair forsætisráðherra Bretlands tilkynni í dag að flutningur herliðs Breta frá Írak hefjist innan nokkurra vikna. Samkvæmt áætlun Blairs munu fyrstu 1.500 hermennirnir úr 7.100 manna liði þeirra í Írak snúi heim á næstu vikum. Búist er við því að alls 3.000 hermenn hafi snúið heim fyrir lok ársins, ef ástandið versnar ekki.

Anders Fogh Rasmussen forsætisráðherra og Per Stig Møller, utanríkisráðherra Danmerkur, halda sameiginlegan fréttamannafund eftir hádegið í dag, þar sem búist er við að þeir tilkynni um viðlíka heimkvaðningu danskra hermanna á fréttamannafundi eftir hádegið. Samkvæmt dönsku fréttastofunni Ritzau er hér um danskt herlið á Basra-svæðinu að ræða.

Stjórnarandstöðuþingmenn í Bretlandi fagna ákvörðun Blair en segjast vilja fá dagsetningu á brotthvarf breskra hermanna frá Írak. Blair er því andsnúinn og segir að dagsetning myndi virka sem vatn á myllu uppreisnarmanna.

Andstæðingar George W. Bush, forseta Bandaríkjanna, hafa notað þessa ákvörðun Blair til þess að gagnrýna fjölgun bandarískra hermanna í Írak. Blair sagði fyrir nokkrum dögum að breski herinn hefði lokið við að þjálfa íraskar hersveitir í Basra í suðurhluta Íraks og þess vegna geti þær nú tekið við öryggisgæslu á svæðinu og breski herinn snúið heim á leið. Talsmaður Bush sagði Bandaríkjamenn ánægða með að ástandið í Basra gerði Bretum kleyft að kalla hermenn sína heim og sagði Bandaríkin stefna að sama markmiði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×