Erlent

Íranar segja samninga einu leiðina

Ali Larijani, aðalsamningamaður Írana í kjarnorkumálum, á fréttamannafundi í Vín eftir fund sinn með yfirmönnum Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar.
Ali Larijani, aðalsamningamaður Írana í kjarnorkumálum, á fréttamannafundi í Vín eftir fund sinn með yfirmönnum Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar. MYND/AP

Aðalsamningamaður Írana, Ali Larijani, segir að Íranar hafi ekki áhyggjur af því að vesturlönd eigi eftir að beita hörðu í kjarnorkudeilunni. Eftir fund með Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni í gær sagði Larjani að eina leiðin til þess að leysa deiluna væri samningaleiðin. Frestur sem Sameinuðu þjóðirnar gáfu Írönum til þess að hætta auðgun úrans rennur út eftir nokkrar klukkustundir og búist er við því að refsiaðgerðir hefjist þá þegar.

Larijani varaði þó við því að óskynsamlega yrði tekið á Íran og sagði að öllum slíkum aðgerðum yrði svarað á viðeigandi hátt.

Hann ítrekaði að þeir væru ekki tilbúnir að samþykkja skilyrði vesturlanda fyrir viðræðum. Forseti Írans, Mahmoud Ahmadinejad, sagði í gær að vestrænar þjóðir ættu sjálfar að hætta kjarnorkuvinnslu áður en þær byðu Írönum til viðræðna.

Búist er við því að Mohammed ElBaradei, yfirmaður Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar, eigi eftir að skýra öryggisráði Sameinuðu þjóðanna frá því í dag að Íran hafi ekki hætt auðgun úrans. Það mun leiða til harðari refsiaðgerða gegn Íran.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×