Erlent

Íran: Óttast ekki árás Bandaríkjamanna

Ali Larijani, aðalsamningamaður Írana í kjarnorkudeilu þeirra við vesturveldin, segir stjórnvöld í Teheran ekki óttast árás Bandaríkjamanna. Vesturveldin komi ekki til með að beita hörku í deilunni. Frestur sá sem Sameinuðu þjóðirnar gáfu Írönum til að hætta auðgun úrans rennur út í dag.

Larijani átti í gær fund með fulltrúum Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar í Vín í Austurríki. Hann sagði eftir fundinn að samningaleiðin ein væri fær til lausnar deilunni. Búist er við að gripið verði til refsiaðgerða um leið og frestur Sameinuðu þjóðanna rennur út í dag. Larijani varaði við því að tekið yrði á Írönum með óskynsamlegum hætti, öllum slíkum aðgerðum yrði svarað með viðeigandi hætti. Hann ítrekaði að stjórnvöld í Teheran væru ekki tilbúnir að samþykkja skilyrði vesturlanda fyrir viðræðum.

Forseti Írans, Mahmoud Ahmadinejad, sagði í gær að vestrænar þjóðir ættu sjálfar að hætta kjarnorkuvinnslu áður en þær byðu Írönum til viðræðna. Ekki eru allir Íranar á sama máli og forsetinn. Einn smærri flokka á íranska þinginu hvetur ráðamenn til að hugsa sinn gang. Flokkurinn hvetur til umbóta.

Flokksmenn spyrja hvers vegna áherslan hjá forsetanum sé þessi og hvetja til þess að orðið verði við kröfum Sameinuðu þjóðanna til að forða því að önnur ályktun verði samþykkt gegn Íran og að gripið verði til refsiaðgerða. Fram kemur á fréttavef BBC að þetta er í fyrsta sinn sem glittir í deilur um málið hjá Írönum sjálfum. Bandamenn forsetans voru þó fljótir að banda á að þarna væru skósveinar Bandaríkjamanna á ferð og ekkert að marka þá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×