Erlent

Bretar og Danir kalla hermenn heim frá Írak

Danir ætla að kalla alla hermenn sína frá Írak áður en ágústmánuður gengur í garð. Þetta tilkynnti forsætisráðherra Danmerkur í dag. Á sama tíma greindi starfsbróðir hans í Bretlandi frá því að 1.600 breskir hermenn yrðu kallaðir heim á næstu mánuðum.

Þetta gera bandamenn Bush Bandaríkjaforseta um leið og stjórnvöld í Washington ætla að fjölga í herliði sínu í Írak um sem nemur 21 þúsund hermönnum.

Anders Fogh Rassmussen, forsætisráðherra Danmerkur, og Per Stig Möller, utanríkisráðherra, greindu frá því í hádeginu að 460 hermenn yrðu kallaðir heim áður en ágústmánuður gengi í garð. 9 manna þyrlusveit yrði þó áfram í landinu til að manna fjórar eftirlitsþyrlur. Danir voru meðal upphaflegu staðföstu ríkjanna við innrásina í Írak í mars 2003. Rasmussen var dyggur stuðningsmaður Bandaríkjaforseta. 5 danskir hermenn hafa fallið í bardögum í Írak.

Á sama tíma og Danir greindu frá sínum breytingum gerði Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, þingi grein fyrir heimkvaðningu hluta breska hersins í Írak. Hann sagði að hermönnum yrði fækkað úr 7.100 í 5.500. Þeir sem yrðu eftir yrðu staðsettir í Basra og styðja við Íraka þar. Blair sagði vel hafa gengið að þjálfa íraskar öryggissveitir og því væri nú hægt að fækka í herliðinu. Herliði fækki síðan enn frekar á næsta ári.

Dick Cheney, varaforseti Bandaríkjanna, fagnaði ákvörðun Breta og Dana í viðtali í Japan í dag. Hann sagði þetta merki um rétta þróun í Írak. Þrátt fyrir þetta ætla Bandaríkjamenn að fjölga í herliði sínu sem telja mun rúmlega hundrað og fjörutíu þúsund hermenn eftir breytingarnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×