Innlent

Ógnaði apamanni með hnífi

Maður með hníf ógnaði afgreiðslumanni á Akureyri í dag eftir að hafa stolið flíspeysu. Afgreiðslumaðurinn hljóp hann uppi í apabúningi og situr hnífamaðurinn nú í haldi lögreglu.

Maðurinn ógnaði Sigurði Guðmundssyni verslunarmanni með hnífi eftir að stela peysu úr Víking búðinni í Hafnarstræti. Hann tók síðan á rás og hljóp Sigurður manninn uppi í apabúningi sem hann var klæddur í tilefni öskudagsins. Þá ögraði maðurinn honum aftur með hnífi og hótaði honum öllu illu, meðal annars að skera hann á háls og drepa. Sigurður hringdi þá í 112.

Það virðist ljóst að Sigurður hafí í apabúningi sínum tekið nokkra áhættu með því að elta manninn, en ræninginn brá þó aldrei hníf sínum.

Sigurður sagði að í svona tilfellum hugsaði maður ekki rökrétt: "þessir aumingjar eiga bara enga miskunn skilið."

Lögreglan handtók manninn 37 mínútum eftir að hann stal peysunni. Hann var enn í haldi nú undir kvöld og hafði ekki verið tekin afstaða til þess hvort farið yrði fram á gæsluvarðhald. Maðurinn er á þrítugsaldri og hefur áður komið við sögu lögreglu. Til skoðunar er hvort maðurinn verði ákærður fyrir vopnað rán.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×