Erlent

Óvíst um framtíð Prodis

Romano Prodi, forsætisráðherra Ítalíu, sagði af sér í gærkvöldi eftir aðeins 10 mánuði í embætti. Ríkisstjórn hans tapaði atkvæðagreiðslu um utanríkismál á ítalska þinginu í gær. Óvíst er hvort Ítalíuforseti samþykkir afsögn Prodis.

Ríkisstjórn Prodis situr áfram þar til annað verður ákveðið. Giorgio Napolitano, Ítalíuforseti, tók við afsögn forsætisráðherra í gærkvöldi. Hann gæti samþykkt hana og gefið öðrum færi á að mynda nýja stjórn. Napolitano gæti einnig boðið Prodi að sitja áfram og mynda nýja stjórn með öðrum flokkum á þingi. Ef þessir kostir hugnast forsetanum ekki gæti hann boðað til kosninga en það er þó talið ólíklegt. Viðræður við Prodi og forvígismenn annarra flokka hófust í morgun.

Kveikjan að afsögn forsætisráðherrans var atkvæðagreiðsla um umdeildt frumvarp hans um að auka hernaðarþátttöku Ítala í Afganistan. Það tók einnig til stækkunar á herstöð Bandaríkjamanna á norðurhluta Ítalíu, en þeim áformum hefur almenningur mótmælt harðlega. Frumvarpið var fellt og munaði tveimur atkvæðum að það fengist samþykkt. Fyrir atkvæðagreiðsluna sagði Massiomo D´Alema, utanríkisráðherra Ítalíu, að svo gæti farið að ríkisstjórnin segði af sér fengist frumvarpið ekki samþykkt. Um leið og það var fellt krafðist stjórnarandstaðan þess að ríkisstjórnin viki.

Stjórnmálaskýrendur spáðu því strax eftir kosningarnar í fyrra að þessi ríkisstjórn níu vinstriflokka yrði ekki langlíf. Reyndar hafa fáar ríkisstjórnin tórað út kjörtímabil sitt á Ítalíu frá Seinni heimsstyrjöldinni. Ríkisstjórn Prodis er sú sextugasta og fyrsta á sextíu og tveimur árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×