Innlent

Vel sótt í sjóð Orkuveitunnar

Guðlaugur Þór Þórðarson, formaður sjóðsstjórnar.
Guðlaugur Þór Þórðarson, formaður sjóðsstjórnar. MYND/Valgarður Gíslason

Nýjum umhverfis- og orkurannsóknarsjóði hjá Orkuveitu Reykjavíkur bárust alls 95 umsóknir um styrki. Umsóknirnar eru samtals að upphæð um 450 milljónir króna og því ljóst að stjórnar sjóðsins bíður vandasamt verkefni, en stjórn Orkuveitunnar hefur lagt 100 milljónir króna til sjóðsins.

Guðlaugur Þór Þórðarson, formaður stjórnar sjóðsins, segir ljóst að mikil umræða um loftslagsmál síðustu vikur og mánuði hafi eflt áhuga ungs vísindafólks á því að leggja umhverfismálin fyrir sig. Umsóknarfjöldann telur Guðlaugur vera skýrt merki þess að þegar tekið er frumkvæði í umhverfismálum taki fólk því fagnandi. Hann heldur því einnig fram að þekkingin hér á landi sé framúrskarandi og mikil eftirspurn eftir henni í útlöndum.

Sjóðurinn var settur á fót í samstarfi Orkuveitunnar við háskólana sjö á veitusvæði fyrirtækisins. Rektorar skólanna skipa vísindaráð sjóðsins sem tekur endanlega afstöðu til umsóknanna. Stefnt er að veitingu rannsóknarstyrkja úr sjóðnum í byrjun apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×