Erlent

Þak á stórverslun hrundi í Danmörku

Tvö hundruð fermetra þak stórverslunar í Danmörku hrundi undan snjóþunga í nótt. Engan sakaði og framkvæmdastjóri verslunarinnar þakkar fyrir að þetta gerðist ekki á afgreiðslutíma.

Það var um klukkan tvö í nótt sem hluti þaks stórverslunarinnar Bilka hér í Árósum í Danmörku hrundi undan snjóþunga. Verslunin þekur 15 þúsund fermetra og er ein af þeim stærstu í Danmörku. Blautur og þungur snjór síðustu daga safnaðist saman á þakinu yfir garðdeildinni - eins og sést á skiltinu „Hus og have" sem var áður ofan á þakinu. Í dag var garðdeildin hinsvegar full af snjó og einangrunarull.

Lars Christensen, framkvæmdastjóri Bilka, segir að síðastliðin ár hafi fyrirtækið reynt að endurnýja þökin í verslunum Bilka. Verkfræðingur þeirra hafi sagt að burðarþol þaksins yfir garðdeildinni í versluninni sem hrundi í nótt væri í lagi. Þakið hrundi yfir afgreiðslusvæði verslunarinnar.

Lars segist þakklátur fyrir að þetta hafi gerst að næturlagi, aðeins sé hægt að ímynda sér hvað hefði gerst ef þetta hefði átt sér stað að degi til.

Fyrirtækið Dansk Supermarket sem rekur Bilka hefur látið hreinsa snjó af þökum fleiri verslana og vöruhúsa í kjöfar atviksins. Atvikið er ekki einsdæmi í snjóþyngslunum hér í Danmörku undanfarna daga. Þannig hrundi hluti þaks íþróttahallar í Álaborg, og fjögur hundruð fermetra þak yfir Gokart braut í Árósum lét undan þriggja til fjögurra metra lagi af snjó.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×