Enski boltinn

Wenger miður sín yfir hegðun leikmanna sinna

Allt var á suðupunkti undir lok leiksins í dag.
Allt var á suðupunkti undir lok leiksins í dag. MYND/Getty

Arsene Wenger, stjóri Arsenal, hefur beðist afsökunar á hegðun leikmanna sinna undir lok leiksins gegn Chelsea í deildabikarnum í dag, en tveir lærisveina hans var vikið af leikvelli eftir ryskingar. Wenger kveðst þó afar stoltur af spilamennsku síns liðs í leiknum.

"Mér þykir mjög miður hvernig þessi leikur endaði því mér fannst þessi uppákoma ekki endurspegla þróun hans. Þetta var frábær fótboltaleikur tveggja góðra liða en leikmenn misstu stjórn á sér í lokin," sagði Wenger, en Emmanuel Adebayor og Kolo Toure fengu reisupassann hjá djómara leiksins fyrir handalögmál við leikmenn Chelsea. John Obi Mikel hjá Chelsea fór sömu leið fyrir þáttöku sína í uppákomunni.

"Þetta eru ungir strákar og þeir munu læra af þessu. Lengst af spiluðu þeir frábæran fótbolta og ég er stoltur af frammistöðu liðsins," sagði Wenger auk þess sem hann gagnrýndi Howard Webb, dómara leiksins.

"Mér fannst vera rangstöðufnykur af fyrra marki Drogba og í eitt skiptið var Adebayor dæmdur rangstæður þegar hann var að sleppa í gegn. Það var ekki réttur dómur. Auk þess fannst mér hann ekki refsa réttu leikmönnunum fyrir handalögmálin í lokin. Almennt fannst mér hann eiga slakan dag," sagði Wenger.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×