Innlent

Sagði Jón Ásgeir ekki hafa gefið fyrirmæli um færslu bókhalds

Linda Jóhannsdóttir, fyrrverandi fjármálastjóri Baugs, sagði í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun að Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri fyrirtækisins, hefði aldrei gefið fyrirmæli um hvernig færa ætti bókhald Baugs en Jón Ásgeir er meðal annars ákærður fyrir bókhaldsbrot í endurákæru í Baugsmálinu.

Linda, sem var fjármálastjóri Baugs frá árinu 1998 og fram á árið 2001, er níunda vitnið sem kemur fyrir dóminn í þessari viku. Hún var einnig spurð um lánveitingar Baugs og sagði Jón Ásgeir og Tryggva Jónsson, fyrrverandi aðstoðarforstjóra Baugs, hafa tekið ákvarðanir um þau, en Jón Ásgeir er ákærður fyrir meintar ólögmætar lánveitingar til fyrirtækjanna Gaums og Fjárfars og systur sinnar Kristínar.

Í því sambandi vitnaði saksóknari til tölvupósts frá Lindu til Jóns Ásgeirs og Tryggva Jónssonar þar sem fram hefði komið að óinnheimt hlutafé eftir hlutafjárútboð Baugs hefði á tímabili numið 174 milljónum króna. Linda sagði að eftir að hún hefði bent þeim á þetta hefði hún litið svo á að þar með væri málið í höndum Jóns Ásgeirs og Tryggva.

Áætlað er að skýrslutaka af vitnum standi fram yfir hádegi í dag en þær halda áfram á morgun klukkan níu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×