Erlent

Danir skera upp herör gegn mansali

Danir ætla á næstu fjórum árum að verja sem nemur 850 milljónum króna til þess að hjálpa vændiskonum og öðrum fórnarlömbum mansals. Auk þess að hjálpa þessu fólki verður lögð mikil áhersla á að finna sölumennina og refsa þeim. Málið fær breiðan pólitískan stuðning, í Danmörku.

Dönsk stjórnvöld hafa miklar áhyggjur af vaxandi mansali í landinu og hafa nú ákveðið að láta til skarar skríða. Auk þess að grípa til harðra aðgerða á götum Danmerkur verður reynt að auka samvinnu við þau lönd sem konurnar koma frá.

Margar stofnanir og félagasamtök hafa í gegnum árin hjálpað fórnarlömbum mansals en nú er ætlunin að samræma aðgerðir þeirra og gera þær skilvirkari. Auk fyrrnefndra 850 milljóna verður lagt fram fé til þess að berjast gegn mansali í löndum þriðja heimsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×