Erlent

Hlutabréf lækka enn

MYND/AFP
Hlutabréf um allan heim héldu áfram að lækka í verði í morgun þegar að kauphallir opnuðu í Evrópu og Asíu. Það leiddi síðan til áframhaldandi lækkana á mörkuðum í Bandaríkjunum. FTSE vísitalan í Lundúnum lækkaði um 2% og markaðsvirði fyrirtækja þar lækkaði um alls 98 milljarða sterlingspunda, eða um tæpar 13 billjónir íslenskra króna. Þetta hefur leitt til þess að markaðssérfræðingar eru farnir að halda að lækkunin eigi eftir að halda áfram um einhvern tíma.

Lækkanir hófust vegna þess að fjárfestar á kínverska markaðinu óttuðust að kínversk yfirvöld ætluðu sér að setja nýja skatta á hlutabréfaverslun þar í landi til þess að koma í veg fyrir spákaupmennsku. Hlutabréf féllu þá um níu prósent. Áhyggjurnar breiddust síðan út og markaðir um allan heim fóru að lækka. Í daga hafa áhyggjurnar þó breyst og hugsa menn fyrst og fremst ástandið í Bandaríkjunum. Fallið á mörkuðum þar hefur síðan breiðst út enn frekar.

Sumir hafa bent á að hlutbréf hafa risið hratt í verði undanfarið ár og að hugsanlega sé markaðurinn einfaldlega að leiðrétta sig og hlutabréf að nálgast raunvirði sitt á ný. Ben Bernake, yfirmaður Seðlabanka Bandaríkjanna, sagði í gær að ástandið í efnahagsmálum Bandaríkjanna væri stöðugt. Aðalefnahagsráðgjafi George W. Bush, forseta Bandaríkjanna, sagði undirstöður bandarísks efnahagslífs traustar. Þrátt fyrir þessar fregnir virðast fjárfestar enn vera hvumsi og því heldur sala hlutabréfa áfram. Þeir benda á að hagnaður fyrirtækja sé einfaldlega ekki nógu mikill til þess að standa undir þeim háu verðum á hlutabréfum þeirra enn um sinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×