Romano Prodi er aftur orðinn forsætisráðherra Ítalíu, eftir að hann vann traustsyfirlýsingu á þingi, í dag. Prodi sagði af sér í síðasta mánuði, eftir að ríkisstjórn hans tapaði í atkvæðagreiðslu um utanríkisstefnu landsins. Það voru vinstri sinnaðir þingmenn sem felldu stjórnina vegna andstöðu við veru ítalskra hermanna í Afganistan.
Þegar Prodi var falin ríkisstjórnarmyndun á nýjan leik notaði hann tækifærið til þess að berja þingmenn sína til hlýðni, og setti það sem skilyrði að ríkisstjórnin myndi standa við allar alþjóðlegar skuldbindingar sínar, meðal annars hvað varðar hersveitir NATO í Afganistan.