Erlent

18 lögreglumenn myrtir í Írak

Á þessari mynd sem uppreisnarhópurinn sendi frá sér sjást mennirnir 18 sem þeir rændu.
Á þessari mynd sem uppreisnarhópurinn sendi frá sér sjást mennirnir 18 sem þeir rændu. MYND/AFP

Hópur uppreisnarmanna í Írak, sem kallar sig „Íslamska ríkið í Írak" og segist tengjast al-Kaída, skýrði frá því í dag að þeir hefðu rænt og myrt 18 lögreglumenn. Þeir sögðust hafa myrt mennina þar sem stjórnvöld í Írak virtu að vettugi kröfur þeirra.

„Íslamska ríkið í Írak gaf vantrúaðri stjórn al-Maliki 24 klukkutíma til þess að verða við kröfum þess... en stjórnvöld virtu líf þeirra (lögreglumannanna) einskis." sagði hópurinn í yfirlýsingu sem sett var á internetið. „Við munum sýna dóminn yfir mönnunum bráðlega, ef guð leyfir."

Íraska lögreglan fann lík 14 lögreglumanna í dag, aðeins nokkrum klukkustundum eftir að uppreisnarmenn sýndu myndir af mönnunum 18. Hópurinn sagði að þeim hefði verið rænt til þess að hefna fyrir nauðgun á konu í síðasta mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×