Erlent

Forsetaframbjóðandi þarf erlendis í læknisskoðun

Yar'Adua talar hér til stuðningsmanna sinna á útifundi í lok janúar.
Yar'Adua talar hér til stuðningsmanna sinna á útifundi í lok janúar. MYND/AFP

Forsetaframbjóðandi stjórnarflokksins í Nígeríu, Umaru Yar'Adua, þurfti í dag að fara erlendis í læknisskoðun. Flokkurinn sagði í yfirlýsingu í dag að þetta væri venjubundið eftirlit og að Yar'Adua myndi snúa aftur fljótlega til þess að taka þátt í kosningabaráttunni af fullum krafti.

Yar'Adua hefur átt við nýrnavandamál að stríða í gegnum tíðina og í upphafi var efast um heilsu hans og burði til þess að taka þátt í kosningabaráttunni og sinna embættinu, ef hann vinnur kosningarnar.

Þær fara fram þann 21. apríl næstkomandi og þykir þessi ferð Yar'Adua setja aukna spennu í þær. Olusegun Obasanjo, forseti Nígeríu, styður við bakið á Yar'Adua sem í upphafi þótti frekar ólíklegur til þess að hljóta útnefningu flokksins. Sumir stjórnmálaskýrendur segja að hann hafi verið valinn þar sem að Obasanjo álíti að hann geti stjórnað honum á bak við tjöldin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×