Körfubolti

12. sigur San Antonio í röð

Tim Duncan og Vince Carter ræðast við í leiknum í nótt.
Tim Duncan og Vince Carter ræðast við í leiknum í nótt. MYND/Getty

San Antonio Spurs er á fljúgandi siglingu í NBA-deildinni um þessar mundir og í nótt vann liðið sinn 12. sigur í röð þegar það lagði New Jersey af velli á heimavelli, 93-77. Eins og svo oft áður var það liðsheildin sem skóp sigur San Antonio, en allir þeir 12 leikmenn sem voru á skýrslu liðsins náðu að skora stig í leiknum.

San Antonio hefur heldur betur verið að finna taktinn í síðustu leikjum eftir köflótt gengi framan af leiktíð. Varnarleikur liðsins er að smella og þykir ljóst að liðið er að toppa á réttum tíma fyrir úrslitakeppnina. Til marks um hve öflugur varnarleikur San Antonio var er sú staðreynd að New Jersey náði aðeins að skora 33 stig í fyrri hálfleik.

Tim Duncan skoraði 17 stig og tók 13 fráköst hjá San Antonio og Manu Ginobili skoraði 12 stig. Vince Carter var atkvæðamestur hjá New Jersey með 17 stig, en þetta var fimmti tapleikur liðsins í röð.

Steve Francis skoraði körfu í þann mund sem lokaflautið gall og tryggði New York eins stigs sigur á Washinton, 90-89. Memphis náði að binda enda á sex leikja taphrinu með því að leggja Charlotte af velli, 115-107. Paul Gasol skoraði 31 stig og tók 15 fráköst fyrir Memphis.

Philadelphia vann sinn sjöunda leik í röð í nótt þegar það bar sigurorð af Indiana, 100-96. Þetta var áttundi tapleikur Indiana í röð. Þá skoraði Josh Smith 32 stig og leiddi Atlanta til 99-97 sigurs gegn Minnesota.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×