Erlent

Stefnir í uppgjör í Zimbabwe

Morgan Tsvangirai, leiðstogi stjórnarandstöðunnar í Zimbabwe.
Morgan Tsvangirai, leiðstogi stjórnarandstöðunnar í Zimbabwe. MYND/AFP

Stjórnarandstæðingar í Zimbabwe hafa heitið því að halda samkomu þrátt fyrir að stjórnvöld hafi sett bann á allar stjórnmálasamkomur næstu þrjá mánuði. Bannið var sett á vegna ofbeldis sem braust út á samkomu stjórnarandstæðinga í síðasta mánuði.

Hópurinn sem ætlar sér að halda mótmælin kallar sig Björgum Zimbabwe og samanstendur af trúarhópum, mannréttindahópum og stjórnmálahópum. Óeirðalögreglan hefur hins vegar innsiglað fótboltavöllinn þar sem fundurinn átti að fara fram.

Talsmenn hreyfingarinnar segja að þrátt fyrir þetta ætli þeir sér að halda samkomuna. „Það er uppgjör í aðsigi." Lögreglan heldur því þó fram að þeir muni ekki leyfa samkomunni að eiga sér stað.

Þann 18. febrúar var sams konar samkoma stöðvuð með afli af lögreglu þrátt fyrir að hæstiréttur landsins hefði úrskurðað að hún mætti fara fram. Ljóst þykir því að Robert Mugabe, forseta landsins, er ekkert sérstaklega umhugað um að fara eftir lögum landsins því hann virðist vera farinn að beita lögreglunni og hernum fyrir sig án lagalegra heimilda. Mugabe sagði líka nýverið að hann ætlaði sér ekki að segja af sér, þrátt fyrir háan aldur, en hann er 83 ára gamall.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×