Erlent

Tsvangirai leiddur fyrir rétt blár og marinn

Morgan Tsvangirai, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Simbabve, var leiddur fyrir dómara í morgun ásamt fimmtíu bandamönnum sínum. Allir voru þeir handteknir á sunnudaginn. Töluvert sá á Tsvangirai að sögn vitna sem rennir stoðum undir ásakanir um harðræði lögreglu.

Hæstiréttur í Simbabve krafðist þess í morgun að Tsvangirai yrði leiddur fyrir rétt fyrir hádegi ellegar yrði að láta hann og bandamenn hans lausa.

Tsvangirai er leiðtogi stærsta stjórnarandstöðuflokks Simbabve og hefur verið helsti andstæðingur Roberst Mugabe, forseta landsins. Hann og hópur bandamanna voru handteknir á sunnudaginn. Óeirðalögregla leysti þá upp útifund í höfuðborginni Harare en stjórnvöld höfðu lagt blátt bann við slíkum samkomum. Einn mótmælenda var skotinn til bana.

Lögmaður Tsvangirai hefur haldið því fram að lögregla hafi beitt hann ofbeldi í varðhaldi og meinað honum að hitta skjóstæðing sinn, þrátt fyrir dómsúrskurð þar um. Alþjóðasamfélagið hefur fordæmt handtöku Tsvangirais og bandamanna hans. Mótmælin hafi verið friðsamleg og lýðræðisleg. Upplýsingamálaráðherra landsins hins vegar hélt því fram í gær að mótmælendur hefðu ráðist vopnaðir á lögreglumenn og framið skemmdarverk.

Robert Mugabe hefur verið forseti Simbabve frá árinu 1980. Hann er 83 ára gamall en sýnir engin merki þess að hann ætli að sleppa taki sínu af stjórn landsins. Óánægja með stjórnarhætti hans hefur magnast en efnahagsástandið í Simbabver er slæmt. Stór hluti þjóðarinnar er atvinnulaus og verðbólga mælist sú hæsta í heimi eða 1700%




Fleiri fréttir

Sjá meira


×