Erlent

Græn stefna í Bretlandi

Bresk stjórnvöld ætla að draga úr losun koltvísýrings um 60% fyrir árið 2050. Frumvarpsdrög sem miða að því voru kynnt á breska þinginu í dag. Málið er þverpólitískt enda umhverfismál ofarlega á dagskrá hjá öllum stjórnmálaflokkum í Bretlandi.

Það er tekið að vora í Bretlandi og það strax í mars. Gróður er í blóma og hungangsflugurnar komnar á stjá. Nigel Taylor, umsjónarmaður Konunglega grasagarðsins, bendir á að ákveðna trjátengundir séu að vakna til vorsins í byrjun mars, rúmum mánuði fyrr og það sé óeðlileg þróun. Hann þekki hvernig náttúran hafi hagað sér þegar hann var yngri og muni það. Breyting hafi svo sannarlega orðið þar á.

Breyttir tímar vekja ánægju en um leið ugg hjá almenningi og umhverfismál því ekki lengur bara á borðum sérfræðinga heldur í ríkari mæli á stefnuskrám bresku stjórnmálaflokkanna.

Ríkisstjórn Verkamannaflokksins kynnti því í dag drög að svokölluðu grænu frumvarpi sem vonast er til að Íhaldsmenn og Frjálslyndir demókratar styðji einnig. Verði það að lögum verða Bretar fyrstir til að binda í lög hvernig skuli draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Markmiðið er að minnka minnka losun koltvísýrings um sextíu prósent fyrir 2050. Umhverfisráðherra Breta segir breytingar taka gildi fyrr en síðar. Athygli vekur að breskir Íhaldsmenn telja hækkun skatta góða leið til að ná fram umhverfisvænum markmiðum. Fullbúið frumvarp verður tilbúið í haust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×