Erlent

Chirac verður yfirheyrður

Jacques Chirac, fráfarandi forseti Frakklands.
Jacques Chirac, fráfarandi forseti Frakklands. MYND/AFP

Háttsettir menn í franska dómsmálaráðuneytinu fullyrða að Jacques Chirac verði yfirheyrður þegar hann lætur af embætti sem forseti Frakklands vegna hugsanlegra tengsla hans við spillingu á þeim tíma sem hann var borgarstjóri Parísar.

Chirac var borgarstjóri í París á árunum 1977 til 1995 og hefur hann neitað að tengjast nokkru spillingarmáli. Þrátt fyrir það hafa ásakanir komið upp um að Chirac og fylgisveinar hans hafi notað fjármuni borgarinnar til þess að borga undir starfsemi þáverandi stjórnmálaflokks Chiracs, RPR.

Einn af nánustu samstarfsmönnum Chiracs, fyrrum forsætisráðherrann Alain Juppe, var árið 2004 fundinn sekur um spillingu í svipuðu máli.

Búist er við því að Chirac verði yfirheyrður um rándýrar fjölskylduferðir, sem greitt var fyrir í reiðufé, og hvort að fjármunir borgarinnar hafi verið notaðir til þess að greiða fyrir matvörur fjölskyldu Chiracs.

Chirac hefur notið friðhelgi gagnvart hvers kyns lögsóknum á meðan hann var í embætti sem forseti Frakklands.

Fréttavefur BBC skýrir frá þessu í dag.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×