Erlent

Krefjast afsagnar forsætisráðherra Ungverjalands

Frá mótmælunum í Búdapest í kvöld.
Frá mótmælunum í Búdapest í kvöld. MYND/AFP

Lögregla og mótmælendur í Ungverjalandi tókust á í kvöld eftir að um eitt hundrað þúsund mótmælendur í miðborg Búdapest kröfðust afsagnar forsætisráðherra landsins, Ferenc Gyurcsany. Þetta eru stærstu mótmælin í landinu síðan árið 2005 en þá krafðist almenningur þess að hann segði af sér eftir að hann viðurkenndi að hafa logið til stöðu ríkisfjármála. Forsætisráðherrann laug þá til þess að auka líkurnar á því að hann yrði kosinn á ný.

Í fyrstu voru mótmælin friðsamleg en átök brutust út þegar að mótmælendur reyndu að frelsa einn af leiðtogum sínum, sem lögregla hafði handtekið. Lögregla beitti þá táragasi og vatnsfallbyssum til þess að dreifa úr fjöldanum og svöruðu mótmælendur með steinakasti. Þó er talið ljóst að þeir sem börðust gegn lögreglu hafi verið fámennur hópur hægri-öfgamanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×