Erlent

Hitnar undir menningarmálaráðherra Dana

Stjórnarandstaðan á danska þinginu krefst þess að menningarmálaráðherra landsins segi af sér. Hann hafi logið að þinginu um yfirvofandi uppsagnir hjá Danska ríkisútvarpinu og reynt að hafa áhrif á ritstjórnarstefnu þess. Fjármál útvarpsins eru í molum vegna framkvæmda við nýjar höfuðstöðvar.

300 starfsmönnum Danska ríkisútvarpsins verður sagt upp í ár, 10% starfsmanna. Þetta er gert vegna þess að framkvæmdir við nýjar höfuðstöðvar á Amager hafa farið langt fram úr kostnaðaráætlun - eða sem nemur jafnvirði um 20 milljarða íslenskra króna. Reiðin kraumar meðal starfsmanna sem lögðu niður vinnu í fyrradag og fréttatímar féllu þá niður. Ekki bætir úr skák að 120 stjórnendur útvarpsins eru á sama tíma á leið á námskeið í Kaliforníu og kostar það útvarpið jafnvirði rúmlega 40 milljóna íslenskra króna.

Miðað við framúrkeyrsluna skal engan undra að það hafi nú hitnað undir Brian Mikkelsen menningarmálaráðherra. Stjórnarandstaðan krefst afsagnar hans vegna þess að hann hafi logið að þinginu í síðasta mánuði þegar hann sagðist ekki hafa rætt uppsagnir við stjórn útvarpsins. Þá hefur væntanleg ævisaga fyrrverandi útvarpsstjóra, Christer Nissen, valdið Mikkelsen vandræðum en kaflar úr henni hafa verið birtir í dönsku blöðunum.

Nissen var rekinn 2003 en þá var framúrkeyrslan vegna höfuðstöðvanna 16 milljörðum minni en nú og þótti nóg um samt. Nissen segir í bókinni að Mikkelsen hafi gagngert reynt að hafa áhrif á ritstjórnarstefnu útvarpsins. Tölvupóstar sem renna stoðum undir það hafa verið birtir. Mikkelsen segist hins vegar bara vera að lýsa eigin skoðunum, sem honum leyfist. Lögspekingar í Danmörku segja póstana hins vegar á mörkum þess sem ráðherra leyfist.

Þá liggja Anders Fogh Rassmussen, forsætisráðherra, og ríkisstjórn hans undir ámæli í bókinni þar sem segir að ætlun ráðherra hafi verið að einkavæða útvarpið og þeirri stefnu hafi markvisst verið fylgt. Danir hafi hins vegar verið mjög samstíga um að ríkisreka útvarpið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×