Körfubolti

Njarðvík í undanúrslit

Njarðvíkingar tryggðu sér í kvöld sæti í undanúrslitum úrslitakeppni Iceland Express deildarinnar í körfubolta með öruggum útisigri á Hamar/Selfoss 86-60. Skallagrímur og Grindavík mætast í oddaleik í Borgarnesi eftir helgi eftir að Skallagrímur vann sigur í öðrum leik liðanna í Grindavík í kvöld 87-80.

Jóhann Ólafsson var stigahæstur hjá Njarðvíkingum í kvöld með 19 stig og hitti úr 9 af 12 skotum sínum utan af velli. Brenton Birmingham skoraði 16 stig, Egill Jónasson 13 stig og Jeb Ivey skoraði 12 stig og gaf 8 stoðsendingar.

Bojan Bojovic var eini leikmaður Hamars með aðeins 11 stig, Marvin Valdimarsson skoraði 9 stig og Bragi Bjarnason skoraði 8 stig. George Byrd skoraði aðeins 5 stig í leiknum og tók aðeins 4 skot allan leikinn. Hann hirti þó 10 fráköst. Njarðvíkingar nýttu 55% tveggja stiga skota sinna í leiknum en Hamar aðeins 37% sinna.

Flake frábær í Grindavík 

Darrell Flake átti stórleik í Grindavík þegar hans menn í Skallagrími lögðu heimamenn. Flake skoraði 33 stig og hitti úr 13 af 16 skotum sínum og hirti auk þess 7 fráköst. Axel Kárason skoraði 19 stig og Dimitar Karadzovski skoraði 16 stig.

Hjá Grindavík skoraði Jonathan Griffin 26 stig, Adam Darboe 21 stig og Jóhann Þorleifsson skoraði 20 stig - en fyrir Grindvíkinga munaði þó mest um að nafnarnir Páll Axel og Páll Kristinsson voru fjarri sínu besta í sóknarleiknum og skoruðu aðeins 11 stig samanlagt. Það voru einmitt þeir tveir sem fóru á kostum þegar liðið vann fyrsta leikinn í Borgarnesi - og þeir verða því að hrista annað eins fram úr erminni þegar liðin mætast á ný eftir helgina í hreinum úrslitaleik vestra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×