Körfubolti

Byrjar Skarphéðinn í kvöld?

KR-ingar hafa unnið alla sjö leiki sína í Iceland Express deildinni í ár þar sem Skarphéðinn Ingason hefur verið í byrjunarliðinu. Skarphéðinn byrjaði sex leiki í deildarkeppninni og var í byrjunarliðinu í Seljaskóla á laugardaginn þegar KR-ingar tryggðu sér oddaleik í kvöld.

Hann var hinsvegar ekki í byrjunarliðinu í fyrsta leiknum í einvíginu gegn ÍR þegar ÍR-ingarnir unnu í DHL-Höllinni. Nú er að sjá hvort að benedikt Guðmundsson, þjálfari KR sé ekki með tölfræðina á hreinu og skelli honum aftur í byrjunarliðið í kvöld þótt að hann hafi "aðeins" skorað 2 stig í síðasta leik.

Skarphéðinn spilaði aðeins í 3 mínútur og 59 sekúndur í fyrsta leiknum sem KR-ingar töpuðu á heimavelli 65-73. Hann var hinsvegar kominn í byrjunarliðið í öðrum leiknum í Seljaskóla þegar KR-liðið var upp við vegg og varð að vinna. Skarphéðinn spilaði alls í 17 mínútur og 31 sekúndu í leiknum og var með 2 stig og 4 stoðsendingar á þeim tíma.

Skarphéðinn var í byrjunarliðinu í sigurleikjum gegn Snæfelli, Haukum, Þór Þorlákshöfn, Tindastól, Fjölni og ÍR í deildarkeppninni í vetur. Hann skoraði 4,8 stig, tók 2 fráköst, gaf 1,2 stoðsendingar og stal 1,3 boltum í þessum sex leikjum. Í leikjunum sem hann kom inn af bekknum var Skarphéðinn með 4,7 stig, 1,5 fráköst, 0,6 stoðsendingar og 0,9 stolna bolta. Það er því ekki mikill munur á framlagi hans hvort sem að hann byrjar inn á eða ekki en það munar hinsvegar 33% á sigurhlutfalli KR-liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×