Körfubolti

Friðrik Ragnars: Ég var orðinn skíthræddur

Friðrik Ragnarsson sagði sína menn í Grindavík hafa spilað sinn besta bolta í vetur í fyrri hálfleiknum gegn Skallagrími í Borgarnesi í kvöld. Hann sagðist gríðarlega stoltur af strákunum og hlakkar til að mæta sínum gömlu félögum í Njarðvík í undanúrslitunum.



"Fyrstu fimmtán mínúturnar hjá okkur í þessum leik voru það langbesta sem ég hef séð frá þessu liði í vetur. Við náðum yfir 20 stiga forskoti og gríðarleg orka í mannskapnum. Það vill oft gerast að lið sem lenda svona undir og þurfa að koma til baka eins og Borgnesingar í kvöld, springa hreinlega á limminu - og það gerðist í kvöld. Ég er gríðarlega stoltur af mínum mönnum að hafa klárað þetta," sagði Friðrik.

En var ekki farið að fara um hann þegar heimamenn í Skallagrími komust yfir þegar sjö mínútur voru eftir af leiknum. "Veistu, ég ætla ekkert að vera að bulla í þér - ég var orðinn skíthræddur, en við náðum að halda áfram og keyra á þá. Ef maður á að fara niður í svona leik, þá á maður að fara niður spriklandi."

Njarðvíkingar verða næstu mótherjar Grindvíkinga og ljóst að þeirra bíður gríðarlega erfið rimma gegn Íslandsmeisturunum. Friðrik er Njarðvíkingum vel kunnugur, enda spilaði hann með liðinu um árabil og gerði það síðar að Íslandsmeisturum sem þjálfari.

"Þetta verður rosaleg sería - það er á hreinu. Við spiluðum tvisvar við þá í vetur og í fyrra skiptið töpuðum við með einu stigi í framlengingu og síðari leiknum með þremur stigum. Ef andinn í hópnum hjá mér verður eins og hann er núna eigum við alveg að geta velgt þeim undir uggum," sagði Friðrik að lokum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×