Erlent

Gore varar við loftslagsbreytingum

Gore ræðir hér við nefndina í dag.
Gore ræðir hér við nefndina í dag. MYND/AFP
Al Gore, fyrrum varaforseti Bandaríkjanna, varaði í dag við því að neyðarástand gæti skapast um allan heim ef bandaríska þingið gripi ekki til aðgerða í loftslagsmálum. Þetta sagði hann á fundi með nefnd fulltrúadeildar bandaríska þingsins í dag. Hann tók fram að enn væri ekki of seint að koma í veg fyrir hamfarir.

Þetta var í fyrsta sinn sem hann sneri aftur til bandaríska þingsins síðan hann tapaði forsetakosningum fyrir George W. Bush. 20 ár eru síðan Gore fór að tala um gróðurhúsaáhrif og loftslagsbreytingar. Hann á enn eftir að bera vitni fyrir nefnd öldungadeildarinnar en á meðal nefndarmeðlima er Hillary Clinton.

Gore hefur margoft sagt að hann ætli sér ekki að bjóða sig fram til forseta Bandaríkjanna árið 2008. Engu að síður hafa skoðanakannanir sýnt að kjósendur hafa á honum mikið álit og er hann aldrei langt á eftir Hillary Clinton og Barack Obama.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×