Erlent

Ný tækifæri felast í samningnum

Samgönguráðherrar Evrópusambandsins náðu í morgun samkomulagi um umfangsmikinn loftferðasamning við Bandaríkin, sem búist er við að muni stórauka samkeppni á flugleiðum yfir Atlantshafið. Forstjóri Icelandair fagnar samningnum og sér í honum margvísleg tækifæri.

Loftferðasamningurinn hefur legið í loftinu, ef svo má segja, í fjögur ár en í byrjun þessa mánaðar tók loks skriður að komast á málin. Á fundi samgönguráðherra ESB-ríkjanna í Brussel í morgun náðist svo loks samkomulag um þetta mikla hagsmunamál enda er markaðurinn í Atlantshafsfluginu metinn á rúma eitt þúsund milljarða króna. Samkomulagið kveður á um að flugfélög hvar sem er í Bandaríkjunum og ríkjum ESB geta hafið flug yfir Atlantshafið en hingað til hefur það verið háð allströngum skilyrðum. Vonast til að samkeppni í flugi á milli Evrópu og Bandaríkjanna muni með þessu aukast, verð lækka og ferðir verði tíðari. Alger samstaða náðist um málið á fundinum í Brussel í morgun en fyrirfram var búist við að Bretar myndu leggjast gegn því af ótta við að of mikið myndi þrengja að British Airways á Heathrow-flugvelli og vegna þess að heimildir evrópskra flugfélaga til að fjárfesta í bandarískum flugfélögum væru takmarkaðar. Samningurinn gengur í gildi í mars á næsta ári.

Þegar samningurinn gengur í gildi eftir ár er búist við að samkeppni í flugi á milli Evrópu og Bandaríkjanna muni aukast, verð lækki og ferðir verði tíðari. Samningurinn gerbreytir öllu samkeppnisumhverfi á flugleiðum yfir Atlantshafið en þar hefur Icelandair látið til sín taka í gegnum tíðina. Jón Karl Ólafsson forstjóri fyrirtækisins óttast þó ekki aukna samkeppni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×