Viðskipti innlent

Windows Vista fyrir Makka.

Það hefur verið hægt að ræsa Windows XP stýrikerfið á Mökkum í tæpt ár með hugbúnaðnum Boot Camp sem hægt er að sækja frítt á heimasíðu Apple. Þessi hugbúnaður notar tækni sem hefur verið kölluð "Dual Boot", en hún virkar þannig að tölva getur haft tvö eða fleiri stýrikerfi uppsett, en aðeins eitt stýrikerfi getur verið virkt í einu. Þetta þýðir að það þarf að endurræsa tölvuna til að skipta úr einu kerfi í annað.

Hagræðið við þetta er að stýrikerfið sem er notað hverju sinni hefur fullan aðgang að búnaði tölvunnar, eins og tengjum (USB, FireWire og fleira) og öðrum búnaði, eins og skjákorti. Þetta er lausn sem hentar vel fyrir forrit sem þurfa til dæmis óheftan aðgang að skjákorti tölvunnar eins og til dæmis þrívíddar tölvuleikir eða teikniforrit og eins forrit sem tala við jaðartæki. Eða augnakonfektið í Windows Vista.

Nú í vikunni gaf Apple út nýja útgáfu af Boot Camp sem gerir mögulegt að keyra Windows Vista stýrikerfið á Mökkum. Þessi útgáfa er fyrir 32 bita útgáfuna af Windows Vista.

Apple bættu nokkrum eiginleikum við í leiðinni, eins og að geta notað fjarstýringuna sem fylgir Apple tölvum til að stjórna iTunes og Windows Media Player, hugbúnað til að nota innbyggðu iSight myndavélina og Apple Software update hugbúnað sem sækir nýjustu hugbúnaðaruppfærslur til Apple.

Þú getur lesið meira um Boot Camp á www.apple.com/bootcamp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×