Fótbolti

Navarro í sjö mánaða bann fyrir slagsmál

Knattspyrnusamband Evrópu tilkynnti í dag að David Navarro hefði verið dæmdur í sjö mánaða keppnisbann eftir ofbeldisfulla tilburði hans á leik Valencia og Inter í Meistaradeildinni á dögunum. Sambandið hefur óskað þess að bannið nái yfir allar keppnir. Hann var einn sex leikmanna sem fá keppnisbann fyrir slagsmálin og verða bæði lið auk þess sektuð um rúmlega 100 þúsund pund.

Navarro hljóp inn á völlinn eftir að flautað var til leiksloka og blandaði sér í handalögmálin sem þar voru byrjuð milli leikmanna. Navarro kýldi Nicolas Burdisso hjá Inter með þeim afleiðingum að hann nefbrotnaði.

Þeir Burdisso og Maicon hjá Inter fengu sex leikja bann fyrir sinn hlut í slagsmálunum, Carlos Marchena hjá Valencia fékk fjögurra leikja bann og þeir Ivan Cordoba og Julio Cruz hjá Inter fengu þriggja og tveggja leikja bann.

Þetta er ein af hörðustu refsingum sem evrópska knattspyrnusambandið hefur beitt í sögunni og þetta þýðir að lið Valencia verður nokkuð undirmannað í viðureign sinni við Chelsea í 8-liða úrslitum keppninnar. Myndbandið með fréttinni er úr þætti Guðna Bergssonar á Sýn í síðustu viku þar sem Guðjón Guðmundsson fer yfir atburðarrásina á Mestalla leikvanginum í Valencia.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×