Innlent

Jógvan frá Færeyjum söng sig inn í hjörtu Íslendinga

Jógvan frá Færeyjum vann í X-factor á Stöð tvö með 70 prósentum atkvæða.
Jógvan frá Færeyjum vann í X-factor á Stöð tvö með 70 prósentum atkvæða.

Jógvan frá Færeyjum söng sig inn í hjörtu áhorfenda í Vetrargarðinum í beinni útsendingu á X-factor á Stöð tvö í kvöld. Hann háði einvígi í úrslitakeppninni við Hara-systurnar frá HVeragerði og vann með yfir 70 prósent atkvæða.

Jógvan var skjólstæðingur Einars Bárðarsonar í keppninni, en hver dómaranna þriggja undirbjó og þjálfaði söngvara í lokaþáttunum.

"Okkur líður eins og fegurðardrottningum," sagði Einar skælbrosandi eftir að úrslitin úr símaatkvæðagreiðslu voru kunngerð.

Færeyingar fylgdust með sínum manni í keppninni í beinni útsending, en gátu ekki greitt atkvæði.

Opinbert markmið með X-Factor - líkt og forveranum Idol-Stjörnuleit - er að uppgötva nýjar söngstjörnur; laða fram í sviðsljósið hæfileikaríkt söngfólk sem unnið getur hug og hjörtuð þjóðarinnar með söng sínum og persónutöfrum.

"Við erum sko ekki að fara að grenja - og við erum ekki hættar!" sögðu Hara-systurnar, Hildur og Rakel.

Báðir keppendur fluttu nýtt lag, sem Óskar Páll Sveinsson og Stefán Hilmarsson sömdu sérstaklega fyrir úrslitaþáttinn. Lagið, í flutningi sigurvegarans, Jógvans, verður svo gefið út strax að loknum þætti og verður fáanlegt á tonlist.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×