Innlent

Heimilin fjármagna 20% fræðslumála

Um tuttugu prósent útjalda til fræðslumála eru fjármögnuð af heimilunum og hefur sá hlutur farið vaxandi síðustu ár. Þá eru um sautján prósent heilbrigðisútgjalda fjármögnuð beint af heimilum landsins. Þrátt fyrir að þetta sé svipuð útgjaldaskipting á milli hins opinbera og heimilanna og gerist í nágrannaríkjunum, er þetta breyting á því fyrirkomulagi sem verið hefur í íslensku samfélagi í heilbrigðis- og menntamálum.

Ríflega 9,4 prósentum af landsframleiðslu var ráðstafað til heilbrigðismála árið 2005, en það svarar til 96,3 milljarða króna. Þetta kemur fram í Hagtíðindum Hagstofu Íslands.

Um 17,5 prósent útgjaldanna voru fjármögnuð af heimilunum, en þáttur heimilanna í kostnaði heilbrigðisþjónustunnar hefur verið á bilinu 17 til 18 prósent síðustu ár.

Ef litið er lengra aftur í tímann, sést að útgjöld til heilbrigðisþjónustunnar hafa vaxið um nálægt 28 prósentum síðustu átta ár, en á mann hafa þau aukist um tæplega 18 prósent á þeim tíma.

Um 8,4 prósent af landsframleiðslu eða ríflega 85 milljörðum króna er ráðstafað til fræðslumála. Um 19,6 prósent útgjaldanna eru fjármögnuð af heimilunum og hefur sá hlutur farið hækkandi síðustu ár. Frá árinu 1998 hafa fræðsluútgjöld hækkað um ríflega 36 prósent, en á mann hafa þau aukist um rúmlega 26 prósent. Mest er aukningin eftir árið 2001.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×