Viðskipti innlent

Íhaldið í FL Group

Morgan Stanley gaf út skýrslu um áhættuálag á skuldabréf Glitnis í kjölfar breytinga á eignarhaldi bankans. Greinandinn telur breytingarnar ekki til marks um stefnubreytingu og færir rök máli sínu til stuðnings þess efnis að FL Group sem stærsti hluthafinn hafi haft næg tækifæri til að hafa áhrif á stefnu bankans fyrir eignabreytingar. FL hafi stutt íhaldssama stefnu bankans og ekki sé að vænta breytinga þar á.

Nú hefur reyndar komið skýrt fram að enginn ágreiningur var um stefnu bankans, en á markaði finnst mörgum afar fyndið að sjá fyrirbærið FL Group nefnt í sömu setningu og íhaldssemi og ofurvarfærni. FL Group og stærstu eigendur þess félags eru þekktir fyrir annað en kyrrstöðu og áhættufælni. Það glottu því margir við tönn og bentu á að þarna væri komið enn eitt dæmið um takmarkaða dýpt greinenda á íslensk fyrirtæki, enda þótt í þessu tilviki væri hún færð til tekna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×