Innlent

Monu Sahlin vel gætt

Monu Sahlin, leiðtoga sænskra jafnaðarmanna, er vel gætt en fjórir lífverðir fylgja henni hvert fótmál í heimsókn hennar hingað til lands. Öryggæsgsæsla ráðherra og stjórnmálaleiðtoga í Svíþjóð var hert verulega eftir morðið á Önnu Lindh utanríkisráðherra árið 2003.

Mona Sahlin kom til landsins í gær ásamt Helle Thorning-Schmidt, leiðtoga danskra jafnaðarmanna, en þær ávörpuðu landsfund Samfylkingarinnar í Egilshöll.

Eftir því var tekið að fjórir lífverðir fylgdu Monu hvert sem hún fór og þegar hún kom ásamt Helle í viðtal við Egil Helgason á Stöð 2 í gærkvöldi vegna Silfurs Egils á sunnudag gættu þeir dyranna og fylgdust með mannaferðum.

Miklar umræður um öryggi ráðherra og stjórnmálaleiðtoga spruttu í Svíþjóð eftir morðið á Önnu Lindh árið 2003 þegar hún gengdi embætti utanríkisráðherra. Fram að því höfðu stjórnmálamenn hafnað allri öryggisgæslu í frítíma sínum en í kjölfar morðsins var hún hert til muna.

Anna Lindh var myrt af geðsjúkum manni í verslunarmiðstöð í Stokkhólmi. Sautján árum áður misstu Svíar annan ráðherra en þá var Olaf Palme forsætisráðherra myrtur þegar hann var á leið heim úr kvikmyndahúsi.

Viðtalið við Monu Salin og Helle Thorning-Schmidt verður sýnt í Silfri Egils á Stöð 2 á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×