Handbolti

Fylkir og ÍR fallin - Ólafur varði 29 skot í marki Vals

Fylkir féll úr DHL-deildinni í dag eftir tap gegn Fram
Fylkir féll úr DHL-deildinni í dag eftir tap gegn Fram mynd/anton brink

Gríðarleg spenna var í dag í næst síðustu umferð úrvalsdeildar karla í handbolta. Toppliðin Valur og HK unnu leiki sína því ráðast úrslit í deildinni ekki fyrr en í lokaumferðinni, en Fylkir og ÍR töpuðu leikjum sínum í dag og eru því fallin úr deildinni.

ÍR átti veika von um að halda sæti sínu í deildinni með sigri í leikjunum sem eftir voru og þurftu að treysta á að úrslit annara leikja yrðu þeim í hag. Til þess kom aldrei í dag, því liðið tapaði stórt fyrir Val 35-24 á Seltjarnarnesi. Anór Gunnarsson skoraði 7 mörk fyrir Val og Markús Máni skoraði 6, en maður leiksins var Ólafur Gíslason í marki Vals, sem varði 29 skot, þar af 19 í fyrri hálfleik. Brynjar Steinarsson skoraði 9 mörk fyrir ÍR.

Fylkismenn þurftu á sama hátt að vinna í dag til að eiga möguleika á að halda sæti sínu, en liðið tapaði 33-29 fyrir Fram. Hjörtur Hinriksson skoraði 10 mörk fyrir Fram og Einar Ingi Hrafnson 6. Agnar Jón Agnarsson skoraði 11 mörk fyrir Fylki.

HK lagði Hauka 33-28 og er því enn með jafn mörg stig og Valsmenn á toppnum, en Valsmönnum nægir sigur á Haukum á útivelli í lokaumferðinni til að tryggja sér fyrsta meistaratitil sinn í níu ár. Valdimar Þórsson var markahæstur HK í dag með 11 mörk og Auguzdas Strazdas 8, en Freyr Brynjarsson og Andri Stefan skoruðu 8 hvor fyrir Hauka.

Stjarnan lagði Akureyri 35-31 í merkingarlitlum leik í Ásgarði. Elías Halldórsson skoraði 9 mörk fyrir Stjörnuna og Gunnar Jóhannsson 7, en Goran Gusic skoraði 8 fyrir Akureyri og Magnús Stefánsson 6. 

Hér fyrir neðan eru úrslit dagsins.

HK-Haukar 33-28

Stjarnan-Akureyri 35-31

Valur-ÍR 35-24

Fram-Fylkir 33-29





Fleiri fréttir

Sjá meira


×