Körfubolti

Ummæli leikmanna KR eftir sigurinn á Njarðvík

Mynd/Vilhelm

Leikmenn KR voru að vonum hátt stefndir eftir að þeir höfðu tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta í kvöld. Flestir töluðu þeir um að áhorfendur og karakterinn í liðinu hefði skilað því sigrinum. KR-ingur númer eitt, Einar Bollason, skrifaði sigurinn að mestu á Benedikt Guðmundsson þjálfara og sagði hann þann besta á landinu.

Pálmi Freyr Sigurgeirsson: Stuðningsmennirnir stórkostlegir



"Ég hef nú bara aldrei lent í öðru eins. Þessi úrslitakeppni er búin að vera ótrúleg og við höfum náð að koma til baka í leik eftir leik þar sem við höfum verið undir í hverri einustu seríu og stuðningsmennirnir hafa verið alveg stórkostlegir."

Brynjar Björnsson: Losers go home -hvað annað?

"Þessi úrslitakeppni er búin að vera rosaleg. Þetta getur ekki verið betra. Við erum búnir að sýna svona svakalegan karakter alla úrslitakeppninna. Vá, hvað þetta er ljúft. Njarðvíkingarnir fóru ekkert á taugum, við vorum bara betri. Nú förum við bara og skemmtum okkur með þessum frábæru áhorfendum sem voru mættir hérna klukkutíma fyrir leik. Þeir eru rosalegir og þetta gerist ekki betra. Ég vil bara bæta því við sem ég sagði eftir Snæfells-leikina - Losers go home."

Einar Bollason, stuðningsmaður: Benedikt bestur.

"KR hjartað klikkar aldrei og það er ekki búið fyrr en það er búið. Það versta við þetta er að ég held að þetta lið sé svo sterkt og eigi eftir að vinna svo marga titla að ég held bara að menn eigi eftir að gleyma okkur þessum gömlu. Þetta er stórkostlegt lið með besta þjálfara sem ég hef séð í mörg ár. Benedikt vann þetta einvígi tvímannalaust og svo erum við með stuðningsmenn sem ekkert annað lið á Íslandi getur státað af. Þeir gáfust aldrei upp."

Darri Hilmarsson: Þeir voru þreyttir

"Við trúðum þessu allan tímann. Þeir voru orðnir þreyttir af því við djöfluðumst í þeim allan tímann. Ég veit ekki um aðra eins stuðningsmenn og við eigum hérna og það er þeim að þakka að við unnum þetta. Svo erum við með besta þjálfarann í deildinni."



Baldur Ólafsson: Gripinn úr steikinni


"Ég var bara í steikinni á föstudaginn langa og svo er maður bara kominn hérna út á gólf að taka þátt í þessu. Þetta er alveg fáránlegt. Ég var bara í gæslunni hérna í fimmta leiknum á móti snæfelli og nú er maður kominn með titilinn hérna úti á gólfi. Þessi lið eru bæði frábær, en það er rosalegur karakter í okkar liði."



Tyson Patterson: Ætlar að koma aftur næsta vetur


Njarðvík er með frábært lið eins og við en sem betur fer datt þetta okkar megin í kvöld. Við náðum að stýra hraðanum, spila vörn og svo skilaði baráttan okkur sigri. Við trúðum því þegar við fórum í framlengingu að leikurinn væri að snúast okkur í hag," sagði Patterson og bætti því við að hann ætti von á því að vera áfram hjá KR næsta vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×