Bakkavör Group skilaði 1,2 milljarða króna hagnaði á fyrsta fjórðungi þessa árs. Afkoman á fjórðungnum er í takt við spár greiningardeilda viðskiptabankanna.
Í uppgjöri Bakkavarar fyrir tímabilið kemur fram að rekstrarhagnaður (EBIT) hafi numið 3,3 milljörðum króna sem er 37 prósenta aukning frá síðasta ári. Rekstrarhagnaður fyrir skatta og gjöld (EBITDA) nam á sama tíma 4,5 milljörðum króna, sem er 28 prósenta aukning.
Þá nam velta 45,1 milljarði króna.
Eigið fé Bakkavarar nam 31,8 milljörðum króna samanborið við 31,1 milljarð á sama tíma í fyrra og nemur tveggja prósenta aukningu. Eiginfjárhlutfall nam 18,6 prósentum sem er 0,4 prósentustigum meira en fyrir ári. Arðsemi eigin fjár nam 16,2 prósentum á tímabilinu samanborið við 18,1 prósents arðsemi í fyrra.
Haft er eftir Ágústi Guðmundssyni, forstjóra Bakkavarar, að fjórðungurinn lofi góðu. Sala í Bretlandi sé góð haldi félagið áfram að styrkja stöðu sína á meginlandi Evrópu. „Við höfum metnaðarfull áform um framtíðarvöxt
og munum leggja áherslu á þróun félagsins á nýjum mörkuðum. Tækifærin eru mikil en búist er við að markaðurinn fyrir ferskar tilbúnar matvörur muni vaxa um 20 prósent í vestur Evrópu á næstu fjórum árum og um 30 prósent í Kína," segir hann.