Innlent

Raunfærnimat þróað hér á landi

Bankastarfsmenn við vinnu sína.
Bankastarfsmenn við vinnu sína. MYND/Vilhelm

Raunfærnimat er nýtt hugtak yfir mat á færni einstaklinga óháð því hvernig hennar var aflað. Nýverið voru 19 bankastarfsmenn útskrifaðir eftir að hafa farið í gegnum raunfærnimat tilraunaverkefnisins „The Value of Work". Um er að ræða samstarfsverkefni á vegum Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins sem vinnur að því að þróa aðferð til að meta raunfærni einstaklinga í atvinnulífinu.

Matinu er meðal annars ætlað að stytta námstíma. Það getur auk þess veitt fyrirtækjum góða yfirsýn yfir mannauð sinn ásamt því að hvetja og auka starfsmenn í námi og starfi.

Tilraunaverkefnið er unnið í samvinnu við Danmörk, England, Kýpur, Slóveníu og Svíþjóð. Fjármagn til verkefnisins kom frá Leonardo Da Vinci starfsmenntaáætlun Evrópusambandsins.

Hér á landi var unnið með mat á raunfærni fyrir þjónustufulltrúa í bönkum.

Þróuð var aðferðarfræði og viðmið fyrir mat á færni almennra starfsmanna. Þrír bankar auk annarra aðila voru samstarfsaðilar í verkefninu hérlendis. Matið var byggt á færni, sjálfsmati, viðtölum, mati yfirmanns og mati í gegnum raundæmi.

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu verkefnisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×