Innlent

Furðar sig á lóðaúthlutun

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar

Forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands furðar sig á að borgin hafi úthlutað Listaháskóla Íslands lóð í Vatnsmýri sem hefur í átta ár verið merkt Náttúrufræðistofnun á deiliskipulagi.

Menntamálaráðherra, borgarstjóri og rektor Listaháskóla Íslands lýstu gleði sinni í gær þegar búið var að undirrita viljayfirlýsingu um að Listaháskóli Íslands fengi ellefu þúsund fermetra lóð í Vatnsmýrinni. Reyndar með þeim óvanalegu skilmálum að skólinn megi selja lóðina og nota andvirðið í aðra lóð - ef önnur betri býðst.

Sverrir Kristinsson fasteignasali segir varlega áætlað að lóðin sé um 900 milljóna króna virði. Lóðin er við hlið Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands, og Jón Gunnar Ottósson forstjóri Náttúrufræðistofnunar finnst gjöf borgarinnar einkennileg.

Jón Gunnar segir auðvitað undir borginni komið hvernig hún ráðstafar lóðinni.

Enn hefur enginn falast eftir lóðinni, segir Hjálmar H. Ragnarsson, rektor Listaháskóla Íslands sem í morgun settist í hárskerastólinn á Salon Veh og lét klippa af sér lubbann en hann hafði heitið því að skerða eigi hár sitt fyrr en húsnæðismál skólans væru í höfn. Allar líkur eru því á að Listaháskólinn rísi í Vatnsmýrinni og framkvæmdir hefjist eigi síðar en 2009.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×