Innlent

Eldur kom upp í bát á Viðeyjarsundi

Gróa sést hér draga skemmtibátinn til hafnar.
Gróa sést hér draga skemmtibátinn til hafnar. MYND/Sigurður Ásgrímsson
Betur fór en á horfðist þegar eldur kom upp í skemmtibát laust fyrir kl. 19 í kvöld. Þyrla Landhelgisgæslunnar og tveir björgunarbátar Slysavarnarfélagsins Landsbjargar lögðu af stað en skipverjum á skemmtibátnum tókst að slökkva eldinn áður en þeir komu á vettvang.

Að sögn Ásgríms L. Ásgrímssonar yfirmanns Vaktstöðvar siglinga/stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar höfðu bátsverjar á skemmtibátnum samband við Vaktstöðina um kl. 18:45 og tilkynntu að eldur væri laus um borð. Skemmtibáturinn var þá staddur á Viðeyjarsundi. Líf, björgunarþyrla Landhelgisgæslunnar, og björgunarbátarnir Ásgrímur Björnsson og Gróa Pétursdóttir höfðu nýlokið björgunaræfingu vestur af Engey þegar kallið kom og héldu þegar af stað til bjargar.

Skömmu síðar tilkynntu bátsverjar að þeir hefðu náð að slökkva eldinn með handslökkvitækjum en báðu um aðstoð til að komast í land þar sem báturinn var orðinn vélarvana. Þyrlan flaug þá af vettvangi en björgunarbátarnir komu að skemmtibátnum austur af Viðey um kl. 19:00. Var þá afráðið að björgunarbáturinn Gróa Pétursdóttir drægi hann inn í Snarfarahöfn. Fimm fullorðnir voru um borð í bátnum og sakaði þá ekki.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×