Óskarsverðlaunahafinn og leikstjórinn Steven Spielberg hefur krafist þess að forseti Kína beiti sér fyrir því að endi verði bundinn á þjóðarmorðin í Darfur í Súdan. Í bréfi til Hu Jintao, forseta Kína, hvatti leikstjórinn Kína til að þrýsta á Afríkulandið að leyfa Sameinuðu þjóðunum að senda friðargæslusveitir til landsins.
Spielberg er nýjasti talsmaður Hollywood stjarnanna sem reynir að beina augum alheimsins að vandamálinu í Darfur.
Kína Hefur mikilla olíuviðskiptahagsmuna að gæta í Súdan og hefur verið ásakað um að koma í veg fyrir að endi verði bundinn á ofbeldið í Darfur.
Í bréfinu sagðist Spielberg bætast í hóp þeirra sem biðluðu til Kína um að breyta stefnu sinni varðandi Súdan.
Á fréttavef BBC segir að Sameinuðu þjóðirnar áætli að 200 þúsund manns hafi látist og tvær milljónir horfið í Darfur síðan árið 2003.
Spielberg er listrænn ráðgjafi Ólympíuleikanna í Peking árið 2008. Hann biðlaði einnig til stjórnvalda í Súdan til að hleypa friðargæslu SÞ inn til að vernda fórnarlömb þjóðarmorðanna.
Spielberg sem leikstýrði Schindlers List mun vera sérstaklega áhugasamur um þjóðarmorð vegna tengsla við stofnun sem sérhæfir sig í sögu og fræðslu. Stofnunin er í Los Angeles og hefur meðal annars safnað vitnisburði rúmlega 50 þúsund fórnarlamba Helfararinnar.
Leikkonan Mia Farrow gagnrýndi Spielberg í grein sem birt var í Wall Street Journal dagblaðinu fyrir tengingu hans við Ólympíuleikana í Kína. Hún spurði hvort hann vildi að sér yrði líkt við Leni Riefenstahl sem var handbendi Nasista á Ólympíuleikunum í Berlín árið 1936.