Körfubolti

Utah í úrslit Vesturdeildar

Derek Fisher fagnar hér sigri Utah í nótt, en hann skoraði gríðarlega mikilvægar körfur á lokasprettinum
Derek Fisher fagnar hér sigri Utah í nótt, en hann skoraði gríðarlega mikilvægar körfur á lokasprettinum NordicPhotos/GettyImages

Utah Jazz tryggði sér í nótt sæti í úrslitum Vesturdeildarinnar í NBA eftir 100-87 sigur á Golden State í fimmta leik liðanna í Salt Lake City. Chicago heldur enn lífi í einvíginu við Detroit eftir nokkuð óvæntan stórsigur á útivelli í nótt 108-92.

Utah vann einvígið við Golden State því 4-1 en þó voru flestir leikjanna hnífjafnir og fjörugir. Andrei Kirilenko skoraði 21 stig og hirti 15 fráköst fyrir Utah í nótt, Carlos Boozer 21 stig og hirti 14 fráköst og Derek Fisher var hetja Utah á ný þegar hann skoraði megnið af 20 stigum sínum þegar mest lá við á lokasprettinum. Utah mætir annað hvort San Antonio eða Phoenix í úrslitum Vesturdeildarinnar, en þangað hafði liðið ekki komist síðan árið 1998.

Baron Davis var stigahæstur hjá Golden State með 21 stig, Stephen Jackson skoraði 16 stig og Matt Barnes 14 stig. Þar með lauk öskubuskuævintýrinu hjá lærisveinum Don Nelson, sem hafa komið gríðarlega á óvart í úrslitakeppninni.

Chicago gerði sér lítið fyrir og yfirspilaði Detroit á útivelli og nú er staðan í einvíginu orðin 3-2 fyrir Detroit og næsti leikur fer fram í Chicago. Detroit náði 3-0 forystu í einvíginu, en nú verður liðið að fara að gæta að sér. Ben Gordon fann loks fjölina sína hjá Chicago og skoraði 28 stig og hitti úr 5 af 6 þristum sínum. Luol Deng skoraði 20 stig og Kirk Hinrich var með 17 stig og 13 stoðsendingar. Chauncey Billups skoraði 17 stig fyrir Detroit, Rip Hamilton 16 og Rasheed Wallace skoraði 15 stig.

Fimmti leikur Cleveland og New Jersey verður sýndur beint á NBA TV sjónvarpsstöðinni á miðnætti í kvöld.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×