Fótbolti

Orri og fé­lagar blanda sér í Evrópu­baráttuna

Smári Jökull Jónsson skrifar
Orri lék í rúman klukkutíma í kvöld.
Orri lék í rúman klukkutíma í kvöld. Vísir/Getty

Orri Óskarsson var í byrjunarliði Real Sociedad sem vann góðan sigur á Leganes í spænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld.

Fyrir leikinn í dag var Real Sociedad í 12. sæti spænsku deildarinnar en gat með sigri lyft sér vel upp töfluna og komið sér í baráttu um eitt af Evrópusætum deildarinnar en sex efstu liðin fá sæti í Evrópu á næsta tímabili. 

Fimm efstu liðin eru ansi langt á undan næsta hóp þar á eftir og barátta Sociedad snýst því um að ná að minnsta kosti sjötta sætinu í deildinni.

Í leiknum geng Leganes í kvöld var Sociedad betra liðið nánast frá byrjun. Orri Steinn var í byrjunarliði heimamanna sem komust yfir strax á 12. mínútu þegar Rússinn Arsen Zakharyan kom þeim í forystu.

Takefusa Kubo tvöfaldaði forystu Sociedad strax í upphafi síðari hálfleiks og þriðja markið skoraði Jon Ander Olasagasti á 80. mínútu en Orri Steinn fór af velli tæpum stundarfjórðungi áður.

Lokatölur 3-0 og sigurinn fleytir liði Sociedad alla leið upp í 8. sætið deildarinnar og nú er liðið aðeins einu stigi á eftir Rayo Vallecano sem er í síðasta Evrópusætinu. 

Orri fékk hrós frá stuðningsmönnum á samfélagsmiðlum eftir leikinn og sögðu stuðningsmenn hann aðeins hafa þurft mark til að kóróna góða frammistöðu og að mikilvægi hans hjá liðinu væri sífellt að koma betur í ljós.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×