Innlent

Syngur um ástir og örlög malískra kvenna

Malíska söngdívan Oumou Sangare sem komin er til landsins segir fjölkvæni í Malí fara verst með konur þar í landi. Söngdívan ætlar sér að syngja um ástir og örlög malískra kvenna fyrir íslendinga á tónleikum á Nasa í kvöld.

Oumou Sangaré söngdívan frá Malí kemur hingað á vegum Heimstónlistarhátíðarinnar Vorblóts. Þetta er í annað sinn sem hátíðin er haldin hér á landi og hefst hún í dag og lýkur á laugardag. Oumou Sangaré er ein vinsælasta söngstjarnan í Malí. Hún byrjaði fimm ára gömul og hefur sungið alla sína tíð. Sangaré hefur barist ötullega fyrir bættum réttindum malískra kvenna.

Hún segir Malíbúa ekki einungis þjást af fátækt heldur fer fjölkvænið sem þar tíðkast illa með margar konur. Sangaré er alin upp með fimm systkynum í gríðarlegri fátækt og hún segir móður sína hafa þjáðst mikið þegar faðir hennar giftist annarri konu.

Sangaré segist mikill jafnréttissinni og lýsir sinni tónlist sem hefbundinni með nútímalegu sniði. Sangaré heldur tónleika klukkan níu á Nasa í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×