Innlent

Bátar í eigu Kambs seldir frá Flateyri

Samkomulag er um að tveir bátar í eigu Kambs á Flateyri verði seldir til nærliggjandi plássa á Vestfjörðum. Þeir taka ríflega helming kvótans sem Kambur hafði til umráða. Bæjarstjórn Ísafjarðar ætlar að gera úttekt á því hvort hægt sé að stofna félag sem gæti keypt aflaheimildir í þeim tilgangi að halda fiskvinnslu á staðnum.

Allar eigur Kambs ehf. á Flateyri hafa verið til sölu frá því fiskvinnslan var nýlega lögð niður. Í eigu félagsins voru fimm línubátar með hátt í 2700 þorskígildistonn og fiskvinnsluhúsið. Hinrik Kristjánsson framkvæmdastjóri Kambs segir að samkomulag hafi verið gert um að tveir línubátar með um 1600 þorskígildistonn verði seldir til Ísafjarðar og Bolungarvíkur. Þriðji báturinn var seldur til Dalvíkur en ekki hefur borist tilboð í fiskvinnsluhúsið.

Hinrik segir að verið sé að ganga frá sölu síðustu tveggja bátanna til annarra staða á landinu. Miklar áhyggjur eru af atvinnuástandinu á Flateyri eftir að 120 starfsmönnum Kambs var sagt upp störfum. Nýlega var samþykkt á bæjarstjórnarfundi á Ísafirði að gera úttekt á því hvort bæjayfirvöld gætu stofnað almenningshlutafélag sem keypti aflaheimildir til að halda fiskvinnslunni á staðnum. Halldór Halldórsson bæjarstjóri á Ísafirði segist hlynntur því að gerð verði úttekt en staðreyndin sé sú að tiltölulega lítill afli fáist fyrir mikið fé.



Bæjarstjórinn segir einnig að kanna verði hvort skynsamlegra sé að stuðla að atvinnuuppbyggingu á Vestfjörðum fremur en að bæjaryfirvöld kaupi kvóta. Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra sagðist í hádegisviðtalinu í dag hafa fulla trú á að það takist að bjarga atvvinnulífinu á Flateyri




Fleiri fréttir

Sjá meira


×