Innlent

Helgi Hjálmsson nýr formaður Landssambands eldri borgara

Helgi Hjálmsson fráfarandi varaformaður Landssambands eldri borgara var kjörinn formaður sambandsins á landsþingi fyrr í dag. Ólafur Ólafsson fyrrverandi landlæknir sem verið hefur formaður landssambandsins undanfarin tvö ár, dró framboð sitt til formanns til baka á síðustu stundu og var Helgi kosinn einróma án formlegrar atkvæðagreiðslu.

Miklar erjur hafa verið innan landssambandsins undanfarnar vikur og mánuði milli þeirra sem styðja Helga og stuðningsfólks Ólafs. Í samtali við fréttastofuna í dag, sagðist Ólafur hafa annað við tíma sinn að gera en gegna formannsembætti.

Fundurinn var haldinn í Ketilhúsinu á Akureyri og sóttur af 150 fulltrúum félaga eldri borgara víðs vegar af landinu. Í lok fundarins var Ólafur hylltur og þakkað fyrir störf hans fyrir hönd þeirra. Helgi segir að ný forysta muni halda áfram á sömu braut og sjá til þess að stjórnvöld standi við loforð sín varðandi bættan hag eldri borgara. Margrét Margeirsdóttir var kjörin varaformaður á þinginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×