Innlent

Ætlunin ekki að skaða atvinnulífið heldur ná niður verðbólgunni

Davíð Oddsson seðlabankastjóri segir að bankinn eigi að sæta samfelldri gagnrýni og sé ekki yfir hana hafinn að neinu leyti. Markmið bankans sé hins vegar að ná verbólgunni niður og hækkun stýrivaxta sé eina tækið til þess. Ætlunin sé alls ekki að skaða atvinnulífið eins og Samtök atvinnulífsins vilji meina.



Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins gagnrýndi Seðlabankann harkalega í gær og sagði hann hafa skaðað atvinnulífið með stýrivaxtahækkunum. Ríkisstjórnin þyrfti að taka á þeirri sjálfheldu sem stjórn peningamála og hagstjórnin hefðu ratað í. Framkvæmdastjórn samtakanna átti fund með forsætisráðherra og utanríkisráðherra í gær þar sem samtökin lýstu yfir áhyggjum af stöðu mála hér á landi.



Davíð Oddsson seðlabankastjóri segist ekki sammála gagnrýni Samtaka atvinnulífsins að öllu leyti en segir margt til í því sem þau haldi fram. Hins vegar telur hann aðgerðir bankans ekki skaða atvinnulífið. Hlutverk Seðlabankans sé að ná tökum á verðbólgunni en mikilvægt sé að ríkisstjórnin og aðilar vinnumarkaðarins vinni sameiginlega að þeim markmiðum.



Samtök Atvinnulífsins segja stýrivaxtahækkunina hafa skaðað atvinnulífið og þau þoli ekki þá skertu samkeppnisstöðu sem of há verðbólga og óhóflegar gengissveiflur hafi skapað. Davíð segir aðhald í hækkun stýrivaxta og það sé markmiðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×