Körfubolti

Aldrei fleiri útlendingar í úrslitum NBA

Manu Ginobili er einn níu útlendinga í úrslitaeinvíginu í NBA
Manu Ginobili er einn níu útlendinga í úrslitaeinvíginu í NBA NordicPhotos/GettyImages

Úrslitaeinvígið í NBA deildinni hefst með látum klukkan eitt eftir miðnætti í nótt þegar San Antonio tekur á móti Cleveland Cavaliers. Leikurinn verður sýndur beint á Sýn. Aldrei hafa fleiri útlendingar verið í liðunum tveimur sem spila til úrslita og verður leikjunum lýst beint í 205 löndum á 46 tungumálum.

Alls munu níu útlendingar taka þátt í úrslitaeinvígi San Antonio og Cleveland sem hefst í nótt klukkan eitt. Franski leikstjórnandinn Tony Parker, Jómfrúareyjamaðurinn Tim Duncan og Argentínumaðurinn Manu Ginobili munu þannig fara fyrir liði San Antonio, en í liði Cleveland eru þrír útlendingar sem styðja við bak ofurstjörnunnar LeBron James.

Eldra metið í þessum efnum áttu San Antonio og Detroit frá í úrslitunum árið 2005 en þá voru 7 útlendingar í liðunum tveimur. Tony Parker hjá San Antonio ætlar að giftast leikkonunni Evu Longoriu eftir úrslitaeinvígið og hann vonast til þess að leikmenn Cleveland lemji ekki mikið á honum í rimmunni svo hann geti litið sæmilega út á brúðkaupsmyndunum.

"Ég væri svosem alveg til í að vera með skrámur á brúðarmyndunum ef það þýddi að ég hefði náð mér í fjórða meistaratitilinn minn," sagði Parker. Félagi hans Tim Duncan á von á erfiðum úrslitum og segir liðið hafa farið erfiða leið í úrslitin að þessu sinni. "Ég held að við höfum aldrei farið jafn erfiða leið í úrslitaleikina, því við þurftum að slá út mjög sterk lið á leið okkar þangað," sagði Duncan. San Antonio sló út Denver, Phoenix og Utah á leið sinni í úrslitin.

Útlendingar í úrslitaeinvígi NBA í ár:

San Antonio: Tim Duncan - Jómfrúareyjum, Tony Parker - Frakklandi, Manu Ginobili og Fabricio Oberto - Argentínu, Beno Udrih - Slóveníu og Francisco Elson - Hollandi.

Cleveland: Zydrunas Ilgauskas - Litháen, Aleksandar Pavlovic - Svartfjallalandi og Andreson Varejao frá Brasilíu. 

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×