Innlent

Ókeypis bóluefni fyrir áhættuhópa

MYND/365

Sóttvarnarlæknir undirritaði nýverið fyrir hönd hins opinbera samning við GlaxoSmithKline (GSK) og Icepharma um kaup á bóluefni gegn árlegri inflúensu. Bóluefnið mun verða áhættuhópum að kostnaðarlausu en selt öðrum á kostnaðarverði. Þetta kemur fram í nýjasta tölublaði Farsóttarfrétta.

Samningurinn mun taka gildi næsta haust og gilda í fjögur ár. Fyrstu tvö árin munu 30.000 skammtar verða keyptir árlega frá hvoru fyrirtæki en seinni tvö árin 60.000 skammtar frá GSK hvort ár. Með þessu leitast heilbrigðisyfirvöld við að auka inflúensubólusetningar, einkum hjá áhættuhópum. Á undanförnum árum hafa um 50.000-55.000 skammtar af inflúensubóluefni verið seldir á ári.

Í sama tölublaði kemur fram að í Alþjóðaheilbrigðisreglugerðinni sé kveðið á um að tengiliður ríkis vegna heilbrigðisógna sé aðgengilegu alla tíma sólarhringsins allan ársins hring. Gerðar voru breytingar á sóttvarnarlögum í vor til að uppfylla þessar kröfur. Þar er kveðið á um að sóttvarnarlæknir sé tengiliður Íslands við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×