Körfubolti

San Antonio getur orðið NBA meistari í nótt

Tony Parker hefur verið frábær í einvíginu við Cleveland
Tony Parker hefur verið frábær í einvíginu við Cleveland AFP

Fjórði leikur Cleveland og San Antonio í úrslitaeinvíginu í NBA deildinni fer fram klukkan eitt í nótt og verður sýndur beint á Sýn. Þar getur San Antonio orðið meistari í þriðja sinn á fimm árum með sigri þar sem liðið er með 3-0 forystu í einvíginu.

San Antonio vann fyrstu tvo leikina með miklum yfirburðum á heimavelli sínum og vann nauman sigur 75-72 í þriðja leiknum í Cleveland þrátt fyrir að vera fjarri sínu besta. Engu liði í sögu deildarinnar hefur tekist að koma til baka og vinna einvígi í úslitakeppninni eftir að hafa lent undir 3-0.

Áhugi á úrslitaeinvíginu hefur ekki verið jafn mikill og venjulega í Bandaríkjunum og hefur sjónvarpsáhorf þar í landi verið í sögulegu lágmarki. Annað er þó uppi í smáríkinu Súrinam í Suður-Ameríku, en þar er gríðarlegur áhugi á úrslitaeinvíginu. Áhugann má rekja til þess að Francesco Elson, miðjherji San Antonio Spurs, er fæddur í Súrínam þó hann spili með hollenska landsliðinu.

Þessi smáþjóð sem er ekki mikið fjölmennari en Ísland, hefur getið af sér frábæra íþróttamenn á síðustu árum og nægir þar að nefna knattspyrnumenn á borð við Ruud Gullit, Frank Rijkaard og Edgar Davids.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×